Bankasýsla ríkisins.

Frumvarp fjármálaráðherra um Bankasýslu ríkisins er góðra gjalda vert, sem bráðabyrgða lausn á yfirstjórn ríkisbankanna. Með því er gerð tilraun til að halda pólitíkusum frá stjórnum þeirra. En hvaða rekstrarform á að taka við eftir þau fimm ár sem Bankasýslan á að starfa? Ríkisrekstur skóp pólitíska spillingu að margra mati. Samvinnurekstur, ónefndur stjórnmálaflokkur eignaði sér það form, og spillti. Einkarekstur, úr varð glæpastarfsemi sem er spilling í huga okkar almennings að minnsta kosti. Hvað er þá eftir? Jú almenningshlutafélaga formið, hef grun um að það sé rekstrarformið sem stjórnvöld stefni að. En kaupa þá ekki kjölfestufjárfestar (eins og þeir heita á fínu og saklausu máli) hlutabréfin af almenningi og eignast bankanna á ný. Vandlifað í þessum mafíu-heimi.


mbl.is Kafka og Kundera í Bankasýslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurskurður á utanríkisþjónustunni.

Ánægjulegt er að lesa þessa frétt, eftir að hafa bloggað í morgun um nauðsyn þess að fækka ráðuneytum. Selja á 5 embættisbústaði og fækka sendiherrum. Sendiskrifstofum fækkað á þessu ári og næsta. Össur.' nú treystir þjóðin á, að þú standir við þessa áætlun.
mbl.is Sendiherrum fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjaldborgin brestur.



Það hlýtur að vera erfitt fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að kippa til baka stórum hluta af þeim endurbótum á kjörum öryrkja og aldraða sem Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi félagsmálaráðherra kom á, og fjarlægjast þannig hugsjónina um norrænt velferðakerfi. Skjaldborgin sem slegin var um velferðakerfið þegar þessi ríkistjórn var mynduð er byrjuð að bresta. Ekki ætla ég að  deila á ríkistjórnina fyrir þessar skerðingar á kjörum okkar eldri borgara, enda tilheyri ég stétt fiskverkafólks og sjómanna, og vanur því að að okkur sé vegið þegar kreppir að í þjóðfélaginu. Á árum áður var þeirri aðferð beitt að fella gengið til að ná af okkur launahækkunum sem samið var um milli aðila vinnumarkaðarins. Lög voru sett á sjómenn til að hafa af þeim umsamin hlutaskipti. Allt eftir pöntun frá útgerð og fiskvinnslu.

Steingrímur J.Sigfússon fjármálaráðherra segir að þessar skerðingar almannatrygginga séu til bráðabyrgða og verði lagfærðar eins fljótt og hægt er. Ekki verður samt fram hjá því litið, að stór hópur eldri borgara munu búa við þessa skerðingu til æviloka.  Eitt get ég fallist á, að dregið sé úr þeim atvinnutekjum sem ekki skerða tekjutrygginguna. Við sem erum orðin 67 ára og eldri eigum ekki að vera á vinnumarkaði þegar atvinnuleysi er í þeim hæðum sem nú. En það þýðir, að samanlagðar greiðslur úr lífeyrissjóðum og almannatryggingum verða duga fyrir framfærslu. Ég hef ætíð verið ósáttur við, að greiðslur úr lífeyrissjóðum skuli skerða almannatryggingar. Með því hefur ríkisvaldið misnotað lífeyrissjóðina.

Ekki er hægt annað en taka undir með þeim sem kalla eftir niðurskurði í utanríkisþjónustunni með lokun sendiráða. Þaðan heyrast ljótar sögur af flottræfilshætti í aðbúnaði og sukk veislum. Hvernig væri að afnema ríkisábyrgð, og ríkið greiði  8% mótframlag í Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna eins og aðrir atvinnurekendur greiða í almennu sjóðina. Spara mætti  marga milljarða með því. En þá yrði sá ágæti sjóður að skerða lífeyrir og réttindi þingmanna og annarra embættismanna, en hann hefur aldrei staðið undir sér nema með umframgreiðslum úr ríkisjóði.Hvernig væri að leggja af embætti aðstoðarmanna þingmanna, eða fækka þingmönnum niður í 43. Eftir að hafa fylgst með umræðum á Alþingi undanfarið, hef ég sannfærst um að við höfum ekkert með 63 þingmenn að gera, og mál myndu ganga greiðar í gegnum Þingið ef þeim yrði fækkað. Þá vil ég líka taka undir með Borgarahreyfingunni, það er orðið tímabært að gera eignir útrásavíkinganna upptækar. Það er ótækt að þessir menn lifi í vellystingum á meðan verið er að skerða kjör almennings í landinu. Allt þetta má gera með lögum frá Alþingi.

Hvað sem öðru líður, vona ég að núverandi ríkistjórn haldi velli, en það er okkar eina von til að velferðakerfið verði bætt þegar um hægist. Ekki má hleypa spillingarflokkunum að stjórn þessa lands í bráð, helst aldrei.

 


19. júní 2009.

Til hamingju með daginn konur og hvalveiðimenn.

Veiðimenn hvattir til að sleppa stórlaxi.

Landsamband veiðifélaga hvetur til að sleppa stórlaxi. Hvað skyldu fiskifræðingar segja við því? Í hafinu eru menn hvattir til að hlífa smáfiski og veiða þá stóru. Er náttúran önnur í vatni en sjó? Menn hafa trú á, að með því að sleppa stórlaxi sé verið að styrkja stórlaxastofninn.  Stórar hrygnur hljóta líka gefa meira af sér til fjölgunar á stofninum, hvort sem um er að ræða lax eða þorsk. Eða hvað?

mbl.is Veiðimenn hvattir til að sleppa stórlaxi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálsar strandveiðar

Eftir að hafa hlustað á 2. umræðu um frjálsar strandveiðar á Alþingi í gær, tel ég rétt að við 3. umræðu verði tímalengd sú sem mönnum er ætlað í hvern róður verði breitt úr 12 tímum í 24 tíma úr höfn í höfn. Með því væri höfnum landsins minna mismunað. Til dæmis geta verið allt frá 30 mínútur upp í 3 - 4 klukkustundir á miðin, eftir því hvar hafnir eru staðsettar. Með þessum tímamörkum sem nú eru í frumvarpinu er þessum bátum beint að grunnslóð, þar sem yfirleitt er smærri fiskur.

Ef áframhald verður á heimild til frjálsrar strandveiða eftir þessa tilraun í ár, mun koma í ljós að nægjanlegt aðhald við þessar veiðar verði takmörkun á afla hvern sólarhring og 2 banndagar á viku. Brælur sem hamla sjósókn munu verða nægar til að draga úr afköstum við þessar veiðar.

Gaman var að hlusta á þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem andmæltu frumvarpinu, en þeir töluðu gjörsamlega andstætt hugsjónum flokksins varðandi forsjáhyggju, samkeppni og frelsi einstaklingsins. Þeim fannst ótækt að smábátar og veiðarfæri hækka í verði vegna breytinganna á fiskveiðilöggjöfinni, en mynntust ekkert á hversvegna kvótaverð hækkaði upp úr öllu velsæmi. Reyndar segja mér menn að verð á þessum bátum sé að nálgast raunvirði, og að færarúllur sem eru íslensk smíði geti aukið framleiðslu á þeim. Miklar áhyggjur komu fram í tali þeirra varðandi sjósókn. Menn myndu fara á sjó í vondum veðrum, vegna tíma- og aflatakmarka. Eins og sjómenn kunni ekki fótum sínum forráð í því efni. Sjósókn smábáta á handfærum verður ekki stunduð í aðgæsluveðri. Byggðakvótinn kom líka við sögu. Að hluti hans skuli verða veiddur á handfæri frjálsra veiða, virtist vera andstæðingum frumvarpsins þyrnir í augum. Skaðar sjávarbyggðir landsins sögðu þeir, þrátt fyrir að breyta á svæðaskiptingu til móts við þær byggðir sem fá skertan kvóta. Þeir hefðu mátt geta þess að  sumir kvótahafar sem fá úthlutað byggðakvóta, leigja frá sér sinn kvóta í staðinn. Eitt var það sem kom fram í ræðu Ásbjarnar Ólafssonar að koma ætti í veg fyrir að þeir sem selt hafa frá sér kvóta fengju að nýta sér þennan veiðirétt. Ólína þorvarðardóttir vara-formaður sjávarútvegs-og landbúnaðarnefndar upplýsti að lögfræðileg könnun hafi verið gerð og ekki reynst rétt að útiloka þá aðila frá þessum veiðum.

Að opna þetta lokaða og einkavædda fiskveiðistjórnunarkerfi hlýtur að koma örlítið á móts við réttlætiskennd fólks,  draga úr mannréttindabrotrum, og auka lýðræðið í þessu kommúnista kerfi sem fiskveiðar okkar eru í, og sjálfstæðismenn styðja svo rækilega.

 

 

 


Ísafjörður (Skutulsfjörður) er ekki útgerðarbær lengur.

Það þarf engan að undra þó sjómönnum fækki, sem hafa haft sjómennsku að ævistarfi og eru komnir til ára sinna á Ísafirði. Útrýming á störfum þeirra hófst fyrir 25 árum, þegar kvótakerfi við stjórn fiskveiða var tekið upp. Margir þeirra sem voru á sjómennsku aldri þegar útgerðamenn á Ísafirði fóru að moka inn peningum með því að selja burt kvótann, í stað þess að moka inn fiski, eru nú aldraðir menn fyrir sunnan, eða dánir.

Ísafjörður er ekki lengur sá útgerðabær sem hann var fyrir daga kvótakerfisins og verður ekki meðan þetta kerfi verður við líði. Hér áður fyrr gátu menn hætt sjómennsku eftir langan sjómannsferil, og farið að vinna við beitningu á alvöru línubátum,  fengið vinnu í frystihúsi eða rækjuverksmiðju. Nú er það ekki lengur fyrir hendi nema í mjög litlum mæli, og menn fara því burt úr bænum.

Ef þeir fáu sjómenn sem í dag stunda sjó hér við Skutulsfjörð halda vinnu sinni næstu árin, verða vonandi til aldnir sjómenn sem verðskulda að verða heiðraðir á Sjómannadaginn í framtíðinni. Það er að segja, þar til að núverandi kvótahafar hætta útgerð og selja kvótann burt.

Breytingin á atvinnu háttum hér í bæ, er ekki alvond. Minnkandi sjávarútvegur, en vaxandi skólabær er ekki svo slæm skipti, en best væri að hvort tveggja dafni, og vonandi verður það í framtíðinni. þegar við höfum losnað úr fjötrum kvótakerfisins og Háskólinn verður að veruleika, þá mun Ísafjörður (Skutulsfjörður) blómstra á ný.

 


mbl.is Óánægja með að enginn sjómaður skyldi heiðraður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðileyfissvipting Þorsteins Pálssonar.

Á bb-vefnum í dag er birt grein eftir Þorstein Pálsson fráfarandi ritstjóra Fréttablaðsins. Greinin mun vera ritstjórnagrein blaðsins á sl mánudag, og fjallar um ræður sem fluttar voru á sjómannadaginn og hugleiðingar út frá þeim, einkum ræðu sjávarútvegsráðherra. Í greininni segir Þorsteinn m.a.: ''Ríkisstjórnin hefur ákveðið veiðileyfissviptingu, en hefur enga hugmynd um hvað koma á í staðin.''

Þetta er ekki rétt hjá Þorsteini, ekki stendur til að svipta núverandi kvótahafa leyfi til að veiða, þó ákveðið hafi verið að innkalla kvótann.  Hitt er aftur á móti rétt, að ekki er búið að ákveða hvaða reglum verði beitt við endur úthlutun. Ástæða er til að krefja stjórnarflokkana um sínar hugmyndir í því efni.

Þorsteinn Pálsson er vonandi ekki vísvitandi að nota orðið ''veiðileyfissvipting'' til að villa um fyrir fólki, og hætta sem ritstjóri Fréttablaðsins til að taka að sér áróðursherferð fyrir LÍÚ.

 


Icesave-samningurinn er skásti kosturinn.

Miklar deilur  bæði innan þings og utan eru vegna Icesave-samningsins. Furðulegt er hve stór hópur íslendinga halda að við komumst hjá því að bera ábyrgð á eftirstöðvum á Icesave-skuldinni ef eignir bankans hrökkva ekki til. Það hefur alltaf verið ljóst að við yrðum að borga það sem eftir kann að standa þegar lánasöfn og aðrar eignir bankans hafa skilað sér. Það er sárt, en annað er ekki í stöðunni og samningurinn sem nú liggur fyrir ásættanlegur. Ekki reynir á væntanlega ríkisábyrgð fyrr en eftir 7 ár, og á þeim tíma er hægt að greiða inn á höfuðstól lánsins jafn óðum og eignir bankans skila sér, sem hlýtur að draga úr samanlögðum vaxtakostnaði. Vonandi reynist mat Gamla Landsbankans rétt, svo ekki reyni á ábyrgðina. Þeir sem hæst hafa á þingi gegn þessum samningi, hafa því miður enga aðra lausn en dómstólaleiðina sem er fyrirfram töpuð, og myndi valda okkur skaða og skömm.

 Íslendingar verða gera sér ljóst að ''víkingarnir'' okkar rændu sparifé fólks í þeim löndum sem Steingrímur J. samdi við fyrir okkar hönd. Við skulum snúa dæminu við og segja sem svo að breskur banki hafi opnað útibú í Reykjavík og boðið upp á miklu betri vaxtakjör en íslensku bankarnir. Allir reykvíkingar sem áttu sparifé hefðu lagt það inn á innlánsreikning í bankanum. Bankinn orðið gjaldþrota út í Bretlandi og útibúið líka á Íslandi. Hefðu innstæðueigendur íslenskir ekki krafið Breta um sparifé sitt, ef engin innstæðutrygging hefði verið til staðar?

Eitt getum við Íslendingar lært af þessu, að einkavæðing bankana losar okkur ekki sem þjóð, undan ábyrgð á gjörðum þeirra manna sem kaupa.  Því skulum við hafa þá áfram í ríkiseigu.


mbl.is Útlánin eiga að greiða Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætisvog kvótakerfisins.

Í forustugrein Morgunblaðsins í dag Sjómannadag er skrifað m.a.orðrétt: ''Á þessum Sjómannadegi er engin lognmolla í umræðu um sjávarútveg. Stjórnvöld vilja freista þess að leiðrétta hið mikla óréttlæti, sem fólst í því að útgerðarmönnum voru afhent mikil verðmæti endurgjaldslaust þegar kvótakerfinu var komið á. Ríkistjórnin vill fyrna aflaheimildir í skömmtum á 20 árum, en þar blasir við annars konar óréttlæti: Margir hafa selt kvóta sinn og þeir sem keyptu háu verði sjá enga sanngirni í að missa kvótann, en sitja uppi með skuldirnar. Sátt er því ekki í sjónmáli. Ríkistjórnin telur líka rétt að heimila frjálsar handfæraveiðar, en þar blasir líka við óréttlæti sem felst í að smábátasjómenn, sem hafa selt kvóta sinn, geta haldið aftur til veiða án endurgjalds. Við hlið þeirra róa menn, sem keyptu af þeim kvótann dýrum dómum. Sjónarmið þessara manna verður án efa erfitt að sætta.''

Við skulum nú setja á réttlætisvogina óréttlætið sem að ofan greinir annars vegar, og hinsvegar skulum við setja atvinnuöryggi sjómanna og fiskverkafólks í fortíð og framtíð, þegar handhafar kvótans hafa selt, og munu í framtíðinni selja hann burt af viðkomandi svæði. Verðhrun á íbúðareign fólks í sjávarbyggðum landsins vegna fólksflótta. Tekjutap viðkomandi sveitarfélaga og þeirra hafnarmannvirkja.

Við skulum láta þetta duga á vogarskálina, því hún er farin að síga langt niður fyrir skál Morgunblaðsins.

Það má reyndar geta þess að ekki hafa allar sjávarbyggðir farið illa út úr þessu kerfi, því þau sveitarfélög sem hafa útgerðarfélög innan borðs, og hafa vélað til sín kvóta frá öðrum byggðarlögum eru vel sett.

Með óréttlæti var kvótanum úthlutað á sínum tíma, og með óréttlæti skal honum skilað til baka, ef ekki næst samkomulag við útvegsmenn um afhendingu hans til þjóðarinnar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband