Að reka eldri borgara út á vinnumarkaðinn.

Háttvirtur félagsmálaráðherra núverandi, ákvað að taka til baka stóran hluta af þeim umbótum sem Jóhanna Sigurðardóttir kom á fyrir ellilífeyrisþega sem félagsmálaráðherra. Með því kom bakslag í rýmkun á vinnumarkaði. Margir sem eru að komast á svo kallaðan ''löggildann'' aldur, munu hætta við að fara út af vinnumarkaðnum, og þeir sem þegar hafa hætt vinnu munu leita þangað aftur.

Það sem gerist við þetta, er að færri störf losna fyrir þá sem eru atvinnulausir og á atvinnuleysisbótum. Því vaknar sú spurning, hvort sé betra að skerða ellilífeyrir og spara hjá Tryggingastofnun, eða moka peningum í Atvinnuleysistryggingasjóð þegar hann tæmist, sem mun verða í haust ef allt fer sem horfir. Það hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmara að gera eldriborgurum fært að hætta vinnu og fækka með því atvinnulausu fólki.

Eitt verða stjórnvöld að átta sig á, að æskudýrkun sem hér hefur verið á vinnumarkaði er að dvína, og atvinnurekendur líta öðrum augum á atvinnureynslu eldra fólks, en þrek og úthald hinna yngri, sem vinnumarkaðurinn í mörgum tilvikum þarf ekki eins á að halda og áður vegna tækniframfara. Forsætisráðherrann okkar er gott dæmi um hvað ''löggildur'' eldri borgari getur gert, ef heilsan er í lagi.

Eitt er það sem Jóhanna Sigurðardóttir kom á, og var ekki tekið af nú, er lágmarks trygging tekna ellilífeyrisþega fyrir skatt, sem munu vera 180 þúsund krónur á mánuði fyrir einstakling, og 153.500 fyrir hjón hvort um sig. En því miður er þetta langt undir framfærslukostnaði, sem mun vera nálægt 300 þúsund krónur á mánuði fyrir einstakling. Þannig að hjón rétt ná því að hafa samanlagt sem lágmarkstekjur framfærslukostnað einstaklings. Það gefur auga leið að þessar lágmarks tekjur eru langt frá því að vera fullnægjandi fyrir þá ellilífeyrisþega sem njóta lægstu tekna, sem er stór hópur fólks. Þetta veldur því að þessi hópur og þeir sem hafa ívið hærri laun, halda áfram að vinna meðan heilsan leifir, sem er ekki æskilegt við þær aðstæður sem nú eru á vinnumarkaði.

Nú er það ekki svo, að eldra fólk sé ekki reiðubúið að taka þátt í að endurreisa efnahag þjóðarinnar með því að halda áfram að vinna og gefa frat í eftirlaun Tryggingastofnunar, ef skortur væri á vinnuafli. En svo er ekki, og því meira áríðandi að fólk sem á að vera á vinnumarkaðnum en ekki á bótum, gangi fyrir allri vinnu. Rétt er að geta þess að greiðslur ellilífeyris frá lífeyrissjóðum greiðast að fullu þótt viðkomandi vinni fulla vinnu.

Hluti af atvinnuleysisvandamáli okkar í dag, er að tryggja að ellilífeyrisþegar komist sæmilega af með sín eftirlaun og geti hætt vinnu. Sú kynslóð sem nú er að komast á ellilífeyrisaldur hefur vanist þeim lífsgæðum, að geta rekið og viðhaldið sínu húsnæði, átt og rekið bíl og farið í orlof, en ekki eingöngu haft ofan í sig og tæplega það.

Núverandi ríkistjórn með Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi félagsmálaráðherra sem forsætisráðherra, og lofaði að standa vörð um velferðakerfið, ætti að skoða áhrif þess sem að ofan greinir. Og hvort sé dýrara fyrir ríkisjóð, að auka réttindi ellilífeyrisþega hjá Tryggingastofnun, eða endurfjármagna Atvinnuleysistryggingasjóð þegar hann tæmist.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband