Færsluflokkur: Spaugilegt

Sjómannaafsláttur? Ríkistryggður lífeyrissjóður?

Ég hef lítið fylgst með bloggheiminum og fréttum undanfarið, en heyrði minnst á afnám sjómannaafsláttar í RÚV nýlega. Það er ekkert nýtt að umræður um tilvist skattaafsláttar til sjómanna komi upp á borðið með reglulegu millibili þau 50 ár sem sá samningur við sjómenn hefur verið í gildi. Ástæðan fyrir sjómannafslættinum á sínum tíma, var að erfitt var orðið að manna fiskiskipaflotan. Menn vildu frekar vinna í landi, en leggja á sig erfiði, vosbúð og lífshættu sem fylgdi sjómennskunni, ásamt lítið meiri tekjum en í landi.
 
Auðvitað hefur aðbúnaður sjómanna batnað, tæknin létt störfin og aukið tekjurnar, að því marki sem kvótinn leifir. Engu að síður er það réttlætanlegt að sjómenn haldi þessum afslætti, því enn er sjómennskan lífshættulegt starf, þó slysum á sjó hafi sem betur fer fækkað verulega, en þau verða alltaf fyrir hendi. Ég vil líka benda á hversu ótrygg atvinna sjómennskan er í dag vegna kvótakerfisins.
 
Ein eru þau fríðindi sem stór hópur launþega hefur, og aldrei kemur til álita að afnema þegar rætt er um að auka tekjur ríkisjóðs, en það er ríkisábyrgð á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Ef til vill er það vegna þess að ráðherrar, þingmenn, fréttamenn og aðrir áhrifavaldar í íslensku samfélagi hafa þar hagsmuna að gæta.
 
Í lögum um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna segir í 13. grein öðrum kafla A-deildar:
 
'' Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að iðgjald sjóðfélaga til sjóðsins ásamt mótframlagi atvinnurekenda dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins skal stjórn sjóðsins hækka framlag launagreiðenda í samræmi viða niðurstöðu athugunarinnar. Við ákvörðun á greiðslum launagreiðenda umfram 8% af launum sjóðfélaga ráði það sjónarmið að hrein eign A-deildar lífeyrissjóðsins til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda til A-deildarinnar séu á hverjum tíma jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þeirra greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri  skal miða við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur til.
 
Iðgjald launagreiðenda skv. 4. mgr. skal endurskoða árlega og skal ákvörðun um hækkun þess eða lækkun liggja fyrir eigi síðar en 1. október fyrir komandi almanaksár.''
 
Í 32. grein þriðja kafla B-deildar lífeyrissjóðsins segir:
 
''Ríkissjóður ábyrgist greiðslu lífeyris samkvæmt lögum þessum og greiðist hann með 1/12 árslífeyris fyrirfram í hverjum mánuði.''
 
Eins og fram kemur hér að ofan ber stjórn Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna að ákveða fyrir 1. október n.k. hvert mótframlag ríkisins fyrir hvern sjóðfélaga í A-deild á að vera fyrir árið 2010. Fram kom hjá Pétri Blöndal alþingismanni í ræðu á ný liðnu þingi að hann reiknaði með að mótframlagið færi í 13,5 - 14% í stað 8% sem almennt er. 
 
Ríkisábyrgð á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna mun hafa orði til vegna þess, að opinbert starfsfólk hafði ekki verkfallsrétt, en nú er sá réttur fengin fyrir  mörgum árum síðan.
 
Vonandi verður ekki þörf á að hrófla við þessum réttindum, eða sjómannaafslættinum og að í framtíðinni verði einn ríkistryggður lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn.
 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband