Sjávarútvegsráðherrann og innköllun aflaheimilda.

Í síðasta tölublaði Bæjarins Besta hér á Ísafirði, er haft eftir Steingrími J. Sigfússyni sjávarútvegsráðherra, að hann sjái ekki fram á að gerðar verði breytingar á úthlutun aflaheimilda á næsta fiskveiðiári, sem hefst 1.september. Lengri tíma þurfi að gefa sér í að undirbúa breytingar á kerfinu. Það eru heilir fjórir mánuðir eftir af þessu fiskveiðiári, sem ætti að vera nægur tími til að taka jafn einfalda ákvörðun og að halda eftir litlum 5% við næstu úthlutun. Ekkert liggur á að endurúthluta þessum litla hlut, þar sem nægur kvóti verður eftir hjá útgerðinni til að hefja veiðar á nýju fiskveiðiári. Nægur tími ætti  að vera til að stofna auðlindasjóð og afhenda honum þessi 5% til endurúthlutunar. En eins og ég hef áður sagt í bloggi mínu, verða menn að gera sér grein fyrir, að nauðsynlegt getur orðið að veita núverandi handhöfum kvótans forgang á að leigja til sín það sem af þeim er tekið fyrst um sinn. Einnig er haft eftir Steingrími, að hann leggi áherslu á að verkefni nýrrar ríkisstjórnar sé að móta nýja sjávarútvegsstefnu og að því borði þurfi að koma m.a. útgerðamenn, sjómenn og fulltrúar sjávarbyggðanna.  Við vitum að útvegsmenn vilja viðhalda núverandi kerfi, Sjómannasamband Íslands hefur lýst yfir stuðning við kerfið fram að þessu, og ef mið er tekið af afstöðu bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, Vestmanneyja og Snæfellsbæjar, og að þeir spegli afstöðu annarra sveitarfélaga á landsbyggðinni, má ljóst vera að núverandi kvótabrask fær að grassera um ókomna tíð. En fremur segir Steingrímur: ''Ég legg meiri áherslu á að grundvallafyrirkomulagið sé gott, gagnist okkur, búi útgerðinni lífvænleg skilyrði en um leið stuðli að meiri sátt í sjávarútvegi. Afrakstur af góðum og vel reknum sjávarútvegi skilar sér alltaf á endanum til þjóðarinnar.'' Þetta sjónarmið heyrðist ekki fyrir kosningar og greinilegt að ekki hefur verið ætlunin að innkalla aflaheimildir. Ef Steingrímur ætlar ekkert að gera nema í sátt við útvegsmenn verður engin breyting. Þeir munu aldrei sætta sig við kerfi sem þeir geta ekki grætt á og braskað með. Varðandi afraksturinn, verður að teljast eðlilegt að sá sem hefur afnot af eignum þjóðarinnar greiði hóflegt gjald fyrir. Ef sjávarútvegurinn stendur ekki undir því, er hann einfaldlega illa rekinn. Minna má á að til eru útvegsmenn, sem gera út á leigukvóta og greiða lénsherrum sínum okurleigu án þess að væla. Ætla má að það séu menn sem kunna að gera út, annars væru þeir komnir á hausinn. Að lokum vil ég minna á fiskverkafólk sem hefur farið verst út úr núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Hvernig væri að Steingrímur biði fulltrúum þeirra að sáttarborðinu.  Ef Samfylkingin er sömu skoðunar að fresta beri innköllun aflaheimilda, má líta svo á að fyrsta skrefið sé tekið til að svíkja kosningaloforð flokkanna í kvótamálum. En vonandi reynist það ekki rétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband