7.6.2009 | 16:07
Réttlætisvog kvótakerfisins.
Í forustugrein Morgunblaðsins í dag Sjómannadag er skrifað m.a.orðrétt: ''Á þessum Sjómannadegi er engin lognmolla í umræðu um sjávarútveg. Stjórnvöld vilja freista þess að leiðrétta hið mikla óréttlæti, sem fólst í því að útgerðarmönnum voru afhent mikil verðmæti endurgjaldslaust þegar kvótakerfinu var komið á. Ríkistjórnin vill fyrna aflaheimildir í skömmtum á 20 árum, en þar blasir við annars konar óréttlæti: Margir hafa selt kvóta sinn og þeir sem keyptu háu verði sjá enga sanngirni í að missa kvótann, en sitja uppi með skuldirnar. Sátt er því ekki í sjónmáli. Ríkistjórnin telur líka rétt að heimila frjálsar handfæraveiðar, en þar blasir líka við óréttlæti sem felst í að smábátasjómenn, sem hafa selt kvóta sinn, geta haldið aftur til veiða án endurgjalds. Við hlið þeirra róa menn, sem keyptu af þeim kvótann dýrum dómum. Sjónarmið þessara manna verður án efa erfitt að sætta.''
Við skulum nú setja á réttlætisvogina óréttlætið sem að ofan greinir annars vegar, og hinsvegar skulum við setja atvinnuöryggi sjómanna og fiskverkafólks í fortíð og framtíð, þegar handhafar kvótans hafa selt, og munu í framtíðinni selja hann burt af viðkomandi svæði. Verðhrun á íbúðareign fólks í sjávarbyggðum landsins vegna fólksflótta. Tekjutap viðkomandi sveitarfélaga og þeirra hafnarmannvirkja.
Við skulum láta þetta duga á vogarskálina, því hún er farin að síga langt niður fyrir skál Morgunblaðsins.
Það má reyndar geta þess að ekki hafa allar sjávarbyggðir farið illa út úr þessu kerfi, því þau sveitarfélög sem hafa útgerðarfélög innan borðs, og hafa vélað til sín kvóta frá öðrum byggðarlögum eru vel sett.
Með óréttlæti var kvótanum úthlutað á sínum tíma, og með óréttlæti skal honum skilað til baka, ef ekki næst samkomulag við útvegsmenn um afhendingu hans til þjóðarinnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.