Færsluflokkur: Kjaramál

Að vera í lífeyrissjóði með ríkisábyrgð

Ögmundur Jónasson dóms-og samgönguráðherra segist vera hlynntur flötum niðurskurði lána,  þrátt fyrir að það muni valda skerðingu réttinda hjá lífeyrissjóðunum. Ögmundur er fyrrverandi formaður BSRB og veit að lífeyrissjóður þeirra samtaka, og hans eigin, koma ekki til með að þurfa skerða lífeyrisgreiðslur, og réttindi vegna ríkisábyrgðar á þeim sjóði.
 
Engu skiptir hve mikið  tryggingafræðileg staða Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna er  neikvæð, ríkisjóður greiðir mótframlag eftir þörfum sjóðsins. Í dag mun mótframlag ríkisins vera nálægt 15%, en til almennu lífeyrissjóðanna 8%.
 
Þetta ójafnræði til lífeyrisréttinda er ekki líðandi, annað hvort allir lífeyrissjóðir ríkistryggðir, eða enginn.
 
Ekki megum við sem erum í almennu sjóðunum búast við því að jafnrétti komist á í þessum málum, enda bæði alþingismenn og ráðherrar undir þessum verndarvæng ríkissjóðs.

Mótmæla á Silfurtorgi

Hvar voru mótmælendur þegar kvótinn var vélaður burt úr bænum. Hópur fiskverkafólks og sjómanna misstu vinnu sína hér á Ísafirði. Hvar var samstaðan frá höfuðborgarsvæðinu, þar sem fólk óð í peningum upp fyrir haus, og laun voru  í hæstu hæðum.

Ég ætla samt ekki draga úr þörfinni á því að mótmæla í dag, þegar fólk er að missa húsnæði sitt undir hamarinn, á meðan að lánastofnanir afskrifa þúsundir milljarða hjá útgerðaauðvaldinu í landinu. Verst finnst manni að fólk skuli þurfa að henda eggjum í ráðamenn þjóðarinnar, til þess að þeir taki alvarlega reiði fólks.

Það hefur vakið eftirtekt mína undanfarið, að þegar rædd er um ástandið í fjölmiðlum, að það sem veldur  mestum áhyggjum, er að svo kallað millistéttarfólk skuli vera missa húsnæði sitt. Eins og ekki þurfi að hafa áhyggjur af lágstéttinni, það er að segja fólkinu sem skapar í mörgum tilvikum þjóðartekjurnar. Það má éta það sem úti frýs, eins og ætíð í gegnum árin.


mbl.is Mótmæla á Ísafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöðuleikasáttmálar

Ef aðilar vinnumarkaðarins telja að ekki hafi verið staðið við síðasta stöðuleikasáttmála, eiga þeir ekki að ganga frá og skrifa undir nýjan kjarasamning, fyrr en svo hefur verið gert.

Þegar stjórnvöld hafa staðið við þann sáttmála, er tímabært að ákveða hvort nauðsyn sé á nýjum stöðuleikasáttmála, og ef svo reynist vera, að tímasetja öll loforð í þeim sáttmála, og skrifa undir með þeim fyrirvara, að ef ekki er staðið við þær tímasetningar, þá sé allur kjarasamningurinn úr gildi fallinn. Þar með talinn samningurinn milli aðila vinnumarkaðarins.

 

 

 


mbl.is Stöðugleikasáttmálinn verði framlengdur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför að íslenskum sjómönnum.

Sjómenn eru útverðir gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar, en meiga sætt sig við aðför stjórnvalda. Nýustu dæmin eru afnám sjómannaafsláttar og skerðing á öryggi vegna slysa eða veikinda á hafi úti.
 
Sjómannaafslátturinn hefur verið kvatning fyrir menn til að stunda sjómannsstörf, og var settur á fyrir rúmri hálfri öld vegna þess að menn fengust ekki til að leggja á sig það erfiði og þær hættur sem fylgja starfinu.Þessi skattaafsláttur er löngu búinn að skapa sér hefð sem heiðurs laun til handa sjómönnum frá þjóðinni. 
 
Öryggi sjómanna hefur verið verulega skert vegna niðurskurðar á þyrluþjónustu Landhelgisgæslunar. Nýlegt dæmi mun vera um að neitað hafi verið að sækja veikan man um borð í skip á hafi úti, vegna skorts á þyrluáhöfn. Þetta er ekki líðandi og alvarlegra mál en þótt veikum manni í landi væri neitað um sjúkrabíl. Í landi eru ýmis ráð til að koma viðkomandi á sjúkrahús, en út á sjó er bara ein leið, að sigla í land sem getur tekið marga klukkutíma ef ekki sólarhringa.
 
Ergilegast er, að fyrsta vinstri stjórnin sem stofnuð hefur verið á lýðveldistímanum, skuli standa að ,og bera ábyrgð á þessum aðförum að sjómönnum. Við sem styðjum þessa ríkistjórn, og viljum öryggi og velferð okkar sjómanna sem mestan, getum ekki sætt okkur við svona forgangsröðun á sparnaði og niðurskurði vegna efnahagskreppunar.

Kvótaáróður utan Þings og innan.

Umræðan um sjávarútvegsmál á Alþingi hefur fært manni sannanir um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru í bullandi hagsmunagæslu fyrir LÍÚ. Þeir taka hagsmuni útgerðamanna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar. Hver á fætur öðrum koma þeir í ræðustól og fara með sama áróðursbullið og útvegsmenn gera í skipulagðri herferð sinni til að halda í einkarétt sinn á nýtingu auðlindar hafsins. Sá einkaréttur snýst ekki bara um veiðar, heldur sölu og leigu á eign þjóðarinnar. Ekki má gleyma því valdi sem þessi einkaréttur færir þeim. Ekki bara yfir leiguliðum sínum, heldur líka yfir sjómönnum og fiskverkafólki, sem fellst í því að geta (og hafa gert) hótað þessum aðilum að selja kvótann, eða flytja burt úr viðkomandi byggðalagi með fyrirtækin, ef þeir fá ekki öllu sínu framgengt. Svo ekki sé mynnst á  óeðlileg áhrif á bæjar-og sveitastjórnir.
 
Áróðursherferð LÍÚ er byggð upp á því,að störf sjómanna,  fiskverkunarfólks og störf sem útgerð og fiskvinnsla leiða af sér, séu í hættu vegna þess að taka eigi veiðiheimildir af útgerðinni. Með því láta þeir í veðri vaka að ekki verði dreginn fiskur úr sjó, ef kvótinn verður innkallaður. Í þessu fellst hótun, en þeir gleyma því, að sá sem gerir út er ekki númer eitt í greininni, heldur þeir sem sækja sjóinn og það verða alltaf til sjómenn, og því verður alltaf róið til fiskjar á Íslandi.
 
Forustumaður útvegsmanna var gestur morgunútvarpsins hjá Rúv. fyrir nokkru og sagði  eitthvað í þá veru að þegar tekjurnar eru teknar af útgerðinni endi það með ósköpum. Ekki spurðu þáttastjórnendur hvaða tekjur hann væri að tala um. Og slapp hann við að útskýra það. Ekki stendur til að taka af þeim tekjurnar af veiðum þótt kvótinn verði innkallaður. þannig að maðurinn hlýtur að vera tala um tekjur af  kvóta leigu. Getur það verið að þau útgerðarfyrirtæki sem sölsað hafa undir sig stórum hluta af heildar kvótanum og stjórna LÍÚ séu farnir að treysta á leiguliða sína til að halda útgerðinni gangandi. Eða hvað átti maðurinn við?
 
Það fellst mikil viska í orðtakinu að ´´með illu skal illt út reka´´því ættu stjórnvöld að innkalla allan kvótann strax 1. september n.k. í stað þess að gera það á 20 árum, og nota þau ár til að tryggja núverandi handhöfum kvótans veiðiheimild á því magni sem þeir hafa í dag, gegn vægu gjaldi í auðlindasjóð. Tuttugu ára aðlögunar tími ætti að duga og vonandi komin skilyrði til að leggja hið illræmda kvótakerfi af eftir þann tíma.
 
 
 
 

Röng stefna vinstri flokka.

Það hefur alla tíð verið ergilegt að horfa upp á sjálfseyðingarhvöt vinstri flokkanna  þegar þeir hafa sest í ríkistjórn með Sjálfstæðisflokknum. Alþýðuflokkurinn var hluti af Viðreisnarstjórninni á sínum tíma og þurrkaðist nærri út af Þingi, átti aðeins einn kjörinn þingmann þegar yfir lauk. Ástæðan var hversu leiðitamur hann var Sjálfstæðisflokknum í 12 ár, og lét það viðgangast að stefna hans réði ferðinni. Tildæmis var árás á sjómannstéttina vinsæl hjá stjórninni, og sett voru lög þess efnis að tekið var 25% af óskiptum afla til að greiða kostnað útgerðanna vegna tækni nýunga við síldveiðar. Þessi aðferð rýrði hlut sjómanna verulega, og er enn við líði, nema nú greiða þeir hluta af olíukostnaði. Þá voru lög sett til að brjóta á bak aftur verkföll sjómanna, og gengisföll voru tíðar eftir pöntun frá fiskvinnslu og útgerð.

Framsóknarflokkurinn sem ég vil enn telja til vinstriflokkanna gerðist á sama hátt leiðitamur Sjálfstæðisflokknum í 18 ár, og gekkst algjörlega undir stefnu hans. Lét hafa sig í að gefa fáum útvöldum Íslendingum óveiddan fisk í sjónum, með því að koma á kvótakerfi í sjávarútvegi. Einkavæða bankanna og færa þá í hendur vildarvinum flokkanna, með þeim afleiðingum sem síðar urðu. Gera Íslendinga aðila að stríði með því að styðja innrás Breta og Bandaríkjamanna inn í Írak, sem reyndist vera gerð í skjóli upploginna saka.Ekki má gleyma rýrnandi kjör skjólstæðinga Tryggingastofnunar á valdatíma þeirra. Þetta verður að kallast sjálfseyðingarhvöt Framsóknar, eingöngu til að halda völum með því að þóknast samstarfsflokknum.

Fyrsta hreina vinstristjórnin á Íslandi lagði grunn að óvinsældum,- ekki með Icesave-samningunum því þeir eru ekki eins slæmir og menn vilja vera láta,- heldur með því að rýra kjör öryrkja og ellilífeyrisþega, og með því að afnema sjómannaafsláttinn. Þar er ekki um að ræða upphæðir sem koma til með að skipta sköpum fyrir endurreisn efnahagslífsins. En er brot á grundvallar stefnu flokkanna til velferða mála, og gæti orðið fyrsta frækornið til sjálfseyðingar þeirra, ef ekki verður brugðist við hið allra fyrsta, og snúið til baka í þessum málum og grundvallar stefnu mál vinstri stjórnmála í heiðri höfð.


Lýðskrum stjórnarandstöðunnar.

Það varð uppi fótur og fit þegar það barst út um landsbyggðina, að ríkistjórn vinstri flokkanna væri búin að lækka vasapeninga eldri borgara á hjúkrunarheimilum landsins. En ljóst má vera samkvæmt þessari frétt, að hér er um að ræða útúrsnúning og lýðskrum af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hvar sem maður kom við í dag, var verið að ræða hvað vinstristjórnin legðist lágt að ráðast á eldri borgara á þennan hátt. Fólk sem kosið hefur þessa flokka heyrðist lýsa því yfir að þeir fengju ekki sitt atkvæði framar.

Ljóst var að lýðskrum stjórnarandstöðunnar var strax farið að bera árangur, og segja má að varla verði lagst lægra í pólitískum tilgangi. Sannleikurinn er sá að vasapeningar hafa hækkað frá árinu 2007 úr 28.591.- í 41.895 krónur. Auðvitað verður að stefna að því, að hætta taka fjárráðin af þessu fólki og greiða full eftirlaun eftir að lagst er inn á hjúkrunarheimili, eins og Verkefnastjórn um endurskoðun almannatrygginga hefur lagt til.

 


mbl.is Upphæð vasapeninga lækkar ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta hreina vinstristjórn á Íslandi afnemur sjómannaafsláttinn.

Mikið er skrifað á blogginu í dag að sjómannafslátturinn sé barn síns tíma. Hann hefur verið hluti af kjörum sjómann síðan 1954. Auðvitað hafa orðið miklar breytingar á sjósókn frá þeim tíma, en fjarvera frá heimilum og hættur á lífi og limum eru enn fyrir hendi.
 
Fáir virðast muna af hverju sjómannaafslátturinn varð til. Ástæðan var fyrst og fremst sú, að erfitt var orðið að manna bæði bátaflotann og síðutogaranna. Ekki var óalgengt að tukthúsin voru tæmt af brennivíns dauðum mönnum og þeir settir um borð í togara sem var á leið út í túr, jafnvel 3ja mánaða saltfisktúr.
 
Það er rétt hjá Steingrími að aðstæður eru aðrar í þjóðfélaginu en áður þegar komið hefur til tals að afnema sjómannafsláttinn. Sem gefur tilefni til að líta á önnur hlunnindi sem hann og aðrir í þjóðfélaginu njóta. Nefna má dagpeninga hans og annarra á ferðalögum, sem maður hefur heyrt að séu svo ríflegir að afgangur er eftir hverja ferð, sem rennur í eigin vasa. Þá má nefna þingfarakaup sem hann og aðrir landsbyggðaþingmenn njóta vegna fjarveru frá lögheimili sínu, þótt þeir reki heimilið í Reykjavík. Að lokum má nefna þyngsta bagga ríkisins vegna ráðherra, þingmanna og annarra opinberra starfsmann, sem er ríkisábyrgð á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Reikna má með að mótframlag ríkisins og sveitarfélaga í sjóðinn verði 13-14% á næsta ári, vegna hruns fjármálakerfisins í fyrra haust. Samkvæmt lögum tryggir ríkisjóður lífeyrissjóðnum að hann eigi ávalt fyrir framtíðarskuldbindingu, sem þýðir að hann þarf aldrei að skerða réttindi eins og aðrir sjóðir verða gera þegar illa gengur með ávöxtun. Atvinnurekendur á almenna vinnumarkaðnum greiða 8% mótframlag til annarra lífeyrissjóða. Hér er um að ræða milljarða aukakostnað fyrir ríki og bæ, og að sama skapi fríðindi fyrir ráðherra, alþingismenn og annað opinbert starfsfólk.
 
Sjómenn munu ekki láta þetta yfir sig ganga, nema öll fríðindi verði afnuminn í landi. Þegar samningar verða lausir munu þeir gera kröfu á útgerðina um bætur. Til dæmis mætti krefja útgerðina um hærri fæðispeninga, þannig að þeir dygðu fyrir góðu fæði um borð. Ekki verður hægt að krefja þá um frítt fæði, sem yrði þá naumt skammtað og lélegt. Einnig gætu þeir krafist þess að hætta greiða hluta af olíunni. Ríkisvaldið hefur oft í gegnum tíðina sett lög á sjómenn og skert samninga þeirra með því að færa hluta af umsömdum hlutaskiptum þeirra til útgerðarinnar til greiðslu á olíu og öðrum útgerðarkostnaði.
 
Að lokum vil ég benda á, að þrátt fyrir bættan aðbúnað við sjósókn, hafa kvenréttindasamtök ekki krafist þess að jafnrétti milli kynja sé gætt við ráðningu áhafnar um borð í skip.
 
 
 

mbl.is Sjómannastarfið mikið breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutverk lífeyrissjóðanna.

Vegna vaxandi eftirspurnar eftir fjármagni lífeyrissjóðanna, er rétt að mynna á hlutverk þeirra í samfélaginu. En það er, að greiða sjóðfélögum sínum ellilífeyrir til æviloka á aldursbilinu 62ja til 70 ára, eftir því sem viðkomandi sjóðfélagi velur. Það er að segja skerta lífeyrir frá 62ja til 67 ára aldurs, og hækkaðan lífeyrir frá 67 til 70 ára. Óskertur ellilífeyrir er greiddur frá og með 67 ára aldri.

Örorkulífeyrir eiga sjóðirnir að greiða, verði sjóðfélagi fyrir slysi eða veikindum sem valda honum orkutapi sem svarar til örorku 50% eða meir. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum á viðkomandi sjóðfélagi rétt á framreikningi áunninna réttinda sinna síðustu 4 árin fyrir orkutap, til 67 ára aldurs.

Makalífeyrir við fráfall sjóðfélaga, sem nemur 50% ellilífeyrisréttinda sjóðfélagans ásamt framreikningi ef fráfall hans hefur orðið fyrir 67 ára aldur. Greiðsla makalífeyris er tímabundin, en þó aldrei styttri en þar til yngsta barn er orðið 20 ára.

Barnalífeyrir greiðist þeim börnum eða kjörbörnum sem ekki hafa náð 18 ára aldri við fráfall foreldris sem greidd  hefur í sjóðinn eða notið örorku- eða ellilífeyris úr honum.

Að framan rituðu má ljóst vera að skuldbindingar sjóðanna eru miklar, bæði til nútíðar og framtíðar. Ávöxtun á iðgjöldum sjóðfélaganna er því mikilvæg, enda stendur hún að miklu leiti undir lífeyrisgreiðslum.

Þeir sem sækjast eftir að höndla með þessa peninga, hvort sem það eru ríkissjóður, sveitarfélög eða fyrirtæki, verða tryggja lífeyrissjóðunum bæði örugga endurgreiðslu og góða ávöxtun. Í raun kemur sjóðunum ekkert við hvort peningarnir eru notaðir í byggingu landsspítala, umferðamiðstöðvar, lagningu vega, eða endurreisnar fyrirtækja, ef ávöxtun er ásættanleg og örugg trygging liggur fyrir afborgunum vaxta og endurgreiðslu. Ef þessum skilyrðum er fullnægt er ekkert því til fyrirstöðu að sjóðirnir láni fjármagnið til margra ára.

Miklar áhættu fjárfestingar hjá lífeyrissjóðunum heyra vonandi sögunni til, eftir stórfalt tap vegna fjármálahrunsins á síðasta ári.


´´Sjávarútvegur og samstaða´´


Þessi fyrirsögn er á pistli Stakks í síðasta tölublaði Bæjarins besta á Ísafirði. Mínar fínustu taugar fara í hnút þegar ég sé blaðagreinar eða heyri áhrifa fólk í vestfirsku samfélagi mæra kvótakerfið í sjávarútvegi. Enginn landshluti hefur farið jafn illa út úr kvótakerfinu og Vestfirðir. Vestfirðingar voru þeir einu sem höfðu einhverja veiðireynslu í grálúðu þegar hún var sett í kvóta. Þrátt fyrir það var kvótanum dreift um landið og vestfirskar útgerðir sátu eftir með lítinn hluta grálúðukvótans.

Eftir að frjálsa framsalið var lögfest,  hefur það stór hluti kvótans verið seldur burt af svæðinu, að sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum eru rústir einar, miðað við það sem áður var. Fjöldi fólks sem hafði atvinnu af sjávarútvegi farið burt, og líka þeir sem seldu kvótann, og urðu ofsa ríkir á heimsku þeirra stjórnmálamanna sem létu LÍÚ plata sig til að lögfesta framsalið. Engum dettur í hug að álasa þeim mönnum sem nýttu sér þessar aðstæður, enda margir hverjir búnir að skila góðu verki í sinni heimabyggð. Hver hefði ekki nýtt sér þessa arfa vitleysu sem skapaðist?

Ég ætla aðeins að gípa niður í pistil Stakks: ´´Hér hafa verið dugandi sjómenn og fiskvinnslufólk, sem hvergi hafa dregið af sér og eiga ekki skilið að ráðskast sé með óvarlegum hætti með undirstöðu byggðar á Vestfjörðum.´´

Mikið rétt, en undirstaða byggðar á Vestfjörðum hrundi þegar framsalið á kvótanum var leift, þá töpuðu fjöldi sjómanna og enn fleira fiskvinnslufólk atvinnu sinni, en kvótahafar stungu hundruðum milljóna króna í vasanna.

Áfram skrifar Stakkur:´´Mikil fjárfesting liggur í kvóta útgerðarfyrirtækja og fiskvinnsluhúsum. Að tala um grátkór á þessum tíma þegar atvinnu vantar og verðmætasköpun er lífsnauðsynleg er út í hött.´´

Einn er sá vandi sem kvótakerfið hefur skapað er skuldsetning sjávarútvegsfyrirtækja, þrátt fyrir að stærri útgerðir á Vestfjörðum reka sína starfsemi að stórum hluta á gjafakvóta. Ákafinn við að ryðja sem flestum smærri útgerðum út úr greininni hefur meðal annars skapað þessa skuldastöðu, jafnframt því að geta hagnast á útleigu kvótans. Þessi hvati hefur valdið því að hér á Vestfjörðum hefur lítil sem engin endurnýjun farið fram á stærri skipum flotans. Talandi um ummæli félagsmálaráðherra um grátkór útvegsmanna, er það staðreynd að  fyrrverandi formaður LÍÚ Kristján Ragnarsson sem jafnframt er guðfaðir kvótakerfisins, skapaði þennan kór sem hefur sungið síðan. Engin fyrirtæki nema þá Álverin hafa hagnast eins mikið á gengi krónunnar eins og sjávarútvegsfyrirtækin. Þau hafa þess vegna góð skilyrði til að greiða niður skuldir sínar, ef forsvarsmenn þeirra hefðu ekki hugann við að sölsa undir sig sem mest af kvótanum.

Og en skrifar Stakkur:  ´´Vestfirðingar sem hafa áratugum saman lagt sitt af mörkum í þjóðarbúið og ekki verið kvartsarmir. Þó hefur kvóti verið af mönnum tekin að ráði Hafrannsóknarstofnunar vegna sjónarmiða sem byggjast á verndun fiskstofna. Þetta höfum við látið yfir okkur ganga bótalaust.´´

Undir þetta tek ég heilshugar, en mynni á að kvótakerfið var sett á til að vernda og byggja upp fiskstofnana. Reynslan sýnir að kerfið hefur engu skilað í því efni, ef marka má útreikninga Hafrannsóknarstofnunar ( sem flestir draga í efa að gefi rétta mynd af ástandinu ), og eingöngu skilað þeim árangri, sem braskað hafa með kvótann. LÍÚ hefur ávalt stutt Hafró í hennar álitsgerðum, enda þíðir mynni kvóti hærra sölu- og leiguverð.

Að lokum skrifar Stakkur: ´´Að þola bótalaust skerðingu þar sem verðmæti er greitt hefur verið fyrir eru tekin til baka er engu líkara en að heildsalinn komi í búðina og taki vöru sem hann hefur selt og fengið greitt fyrir aftur og gefi þeim sem eru honum þóknanlegri.´´

Þetta er ekki sambærilegt. Kaupmaðurinn hefur engan hag af því að liggja með vöruna þar til heildsalinn kemur aftur, en útgerðin er búin að hagnast á því að veiða þann fisk sem kvótinn vísar til, og hafi útgerðin greitt fyrir kvótann ( sem er ekki í öllum tilvikum )var sú greiðsla afhent kollega, en ekki ríkinu, og veitti henni aðeins  rétt á að veiða aftur og aftur viðkomandi magn sem kvótinn vísar til, en ekki eignarétt til eilífðar.

Innköllun á kvótanum eins og stjórnvöld hafa lagt upp með er óraunhæf. Sársaukaminnst væri að gera eins og gert var á árum áður, þegar sjávarútvegurinn pantaði gengisfellingu hjá viðkomandi ríkistjórn, að þá var gengið fellt á einni nóttu. Eins ætti að gera við innköllun á kvótanum, og leifa mönnum að halda áfram veiðum eins og ekkert hafi í skorist, gegn vægu gjaldi hvert kíló til ríkisins ( Auðlindasjóð ). Nauðsynlegt er að tvöfalda það magn sem veiða má í dag, þjóðin þarf á því að halda að sú áhætta sé tekin, og útgeriðin til að veiða upp í skuldir, og auka atvinnu.

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband