26.11.2009 | 17:36
Afköst Alþingis.
Það væri synd að segja að afköst Alþingis séu mikil þessa daganna. Stjórnarandstaðan heldur uppi málþófi um ríkisábyrgð vegna icesave samningsins, og misnotar þingsköp til að tefja fyrir málinu. Þrátt fyrir margra mánaða þras hefur stjórnarandstaðan enga aðra lausn en að fresta málinu. Þegar hlustað er á stjórnarandstöðu þingfólkið, fær maður á tilfinninguna að þetta ágæta fólk haldi að við Íslendingar getum einhliða ákveðið hvernig samningurinn eigi að hljóða. En svo er ekki, Bretar og Hollendingar eru viðsemjendur okkar, hvort sem okkur líkar betur eða ver. Þeir voru sterki aðilinn við samningaborðið og höfnuðu dómstólaleiðinni sem var okkar eina von. Sú von var þó veik, því líkurnar á að dómstólar hérlendis sem erlendis myndu dæma okkur í vil voru því miður afar litlar. Og eftir að dómur hefði fallið okkur í óhag, hefði samningsstaða okkar versnað um allan helming.
Haft var eftir Ingibjörgu Sólrúnu í fjölmiðlum fyrir stuttu, að Íslendingar hefðu sest við samningaborðið sem sakamenn og mátti skilja hana þannig, að með því hefði ekki náðst betri samningar. Sannleikurinn er nú einu sinni sá að Íslensku samninga mennirnir voru fulltrúar sakamanna. Þeir voru mættir til að semja um að skila illa fengnu fé, sem vinir Davíðs og að öllum líkindum meðlimir Sjálfstæðisflokksins og fjárhagsleg stoð hans, höfðu svikið út úr sparifjáreigendum í Hollandi og Bretlandi með gylliboðum um ávöxtun.
Stjórnarandstaðan kveinkar sér yfir að þurfa sitja fram á nótt vegna eigin málþófs. Fjármálaráðherra sagðist ekki óska þess að lenda á sjó eða sauðburði með þeim sem ekki vilja vinna fram á kvöld. Hann myndi þá væntanlega ekki vilja lenda í sjávarháska með þessu ágæta fólki. Hætta væri á, að engin kæmi sér saman um hvernig best væri að bjarga sér í land. Þrátt fyrir þá staðreynd að Þjóðarskútan er löskuð, neitar stjórnarandstaðan að horfast í augu við þá staðreynd að lengra verður ekki komist með icesave, og nauðsynlegt að snúa sér að öðrum málum til bjargar skútunni.
Auðvitað vill engin Íslendingur greiða icesave-skuldina, og ekki síður alltof háa vexti, en lengra verður ekki komist með þetta mál, og því verður að ljúka svo Alþingi komist í eðlileg afköst og geti fjallað um, og afgreitt brýnustu mál fyrir jól.
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki vikið sér undan því, að bera undirliggjandi ábyrgð á icesave-málinu og fégræðgivæðingu sem spratt upp úr frjálshyggjustefnu flokksins á valdatíma hans og Framsóknar. Því hvílir sú ábyrgð á honum flokka mest, að leysa þjóðina út úr vandanum, og hætta að tefja fyrir björgunarliðinu á Alþingi. Framsóknarflokkurinn lét teyma sig inn í frjálshyggjuna og væri honum sæmt að því, að hætta stuðningi sínum við Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu.
Icesave-málið rætt fram á nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.