14.11.2009 | 15:38
Hörmungar Ísafjarðar í sjávarútvegi á kvótatímabilinu.
Fyrirsögn á frétt hjá Skutull.is í gær segir allt sem segja þarf um útreið Ísafjarðarbæjar í sjávarútvegi eftir að framsal kvótans var leifð. En fyrirsögnin er svona:
Aflaheimildir í Ísafjarðarbæ hafa dregist saman um þriðjung á átján árum
og tvö af hverjum þremur störfum við fiskveiðar hafa tapast.
Vitnað er í greinagerð með umsókn um byggðakvóta, sem lögð var fram í bæjarráði Ísafjarðarbæjar. Þar kemur fram að árið 1991 var 6,7% aflaheimilda á landinu niðurkomnar hjá útgerðum í Ísafjarðarbæ, en nú er hlutfallið 4,7%.
Úthlutað aflamark í þorski var 29 þúsund tonn, en er nú 12.300 tonn. Afleiðing, fækkun íbúa í þeim byggðalögum sem mynda Ísafjarðarbæ úr 4.894 árið 1991 í 3.968 um síðustu áramót.
Þar kemur líka fram að atvinnutekjur af fiskveiðum á Vestfjörðum hafa lækkað um 36% frá árinu 1998 til 2005, á meðan atvinnutekjur af fiskveiðum á landinu öllu lækkuðu um 16%. Þá hefur starfandi mönnum við fiskveiðar á Vestfjörðum fækkað á síðustu tíu árum úr 860 í 520, eða um 40%, á meðan að sjómönnum á landinu öllu hefur fækkað um 16%. Samdrátturinn er meiri ef bara er litið á Ísafjarðarbæ og mestur ef litið er á Ísafjörð, sem tapaði tveimur af hverjum þrem störfum við fiskveiðar á árabilinu 1998 til 2003.
Síðan er gerð grein fyrir tapaðri hlutdeild aflamarks í hverju byggðarlagi innan Ísafjarðarbæjar frá árinu 1991. Ísafjörður úr 4,2% í 2,2% nú. Þingeyri úr 1,3% í 0,7% nú. Flateyri úr 0,7% í 0,1% nú. Suðureyri úr 0,6% í 0,4% nú. Hnífsdalur úr 1,7% í 1,4% nú.
Hér líkur tilvitnun í frétt Skutull.is.
Ljóst má vera af framanskráðu hve illa Ísafjarðarbær hefur farið út úr kvótakerfinu, einkum eftir að framsalið komst á. Þær skerðingar sem eru umfram landsvísu, má skrifa á sölu kvóta úr bænum. Þrátt fyrir að í lögum um framsalið er ákvæði um að sveitarfélögin eigi forkaupsrétt á þeim kvóta sem boðinn er til sölu, hefur bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ekki talið sér fært að nýta sér þann rétt. Áhuginn hefur heldur ekki verið fyrir hendi, að reyna fjármagna slík kaup, þrátt fyrir augljósan hagnað af slíkum til framtíðar. Reyndar var stór hluti kvótans vélaður burt úr bænum með aðstoð þáverandi bæjarstjóra, sem var stjórnarformaður þess útgerðafyrirtækis sem naut góðs af sameiningu við Hrönn h.f. Sameining, það er sú leið sem útgerðir fundu til að komast hjá því að bjóða sveitarfélögum forkaupsrétt samkvæmt lögum. Sameiningunni fylgir loforð um að skipið sem kvótinn er skráður á, verði áfram gert út frá viðkomandi sveitarfélagi. Loforðið svikið eftir mátulegan umþóttunar tíma, og kvótinn þar með komin í annað byggðalag án þess að lögum um forkaupsrétt sé fullnægt.
Það er til vansa að núverandi bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar skulu hafa síðast liðið vor lýst yfir stuðningi við kvótakerfið eins og það er í dag, og andstöðu við fyrirhugaðar innkallanir á kvótanum. Þegar Ísafjarðarbær og Vestfirðir allir þurfa mest á því að halda að núverandi ástsandi í fiskveiðimálum verði breitt. Þar fóru saman sérhagsmunir og flokkspólitísk hollusta, en ekki hagsmunir bæjarfélagsins.
Athugasemdir
Því miður var ég sannspár Bjarni. Ég bennti á það árið 1991, þegar ég fór að vinna í Íshúsfélaginu að kvótakerfið myndi ekki alltaf vinna með Ísafirði. Fram að þeim tíma höfðu svotil allir togarar af minni stöðunum fyrir vestan, horfið en á sama tíma færðist einhver kvóti hingað. Ég sagði þá að röðin kæmi að Ísafirði.
Sigurður Jón Hreinsson, 15.11.2009 kl. 01:31
Sæll Sigurður, takk fyrir innlitið.
Já því miður hafðir þú rétt fyrir þér, og ég hef örugglega verið sammála þér þegar við unnum saman hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga. Auðvitað lá það ljóst fyrir að gamlir og grónir útgerðamenn myndu nota tækifærið sem þeim var fært upp í hendurnar af Halldóri og Steingrími og selja frá sér kvótann og hætta útgerð. Þeir voru orðnir eldri menn og búnir að gera út í langan tíma. Það er ekki hægt að álasa þeim fyrir það. Hver hefði ekki gert það á meðan hægt var að fara vell auðugur út úr greininni. Við hefðum gert það sama, undir sömu kringumstæðum. Sökin er hjá þeim sem skópu kerfið og ekki síst opnuðu fyrir framsalið. Þeir ættu að vera í fangelsi ásamt útrásavíkingunum.
Bjarni Líndal Gestsson, 15.11.2009 kl. 11:30
Sæll Bjarni.
Já,mér finnst þetta allt ein hörmungarsaga eftirað hafa fylgst með í langan tíma.
Einn atburður stendur þó upp úr.
Þegar Geiri seldi Gugguna til Samherja og loforðin flæddu frá stjórn Samherja. Auðvitað verður áfram Ísfirðsk áhöfn og oftast lagt upp á Ísafirði.!
Bjarni minn. þetta man ég alltaf og þið stóðu bara og horfðuð á svikarana !
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 23:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.