20.6.2009 | 13:00
Skjaldborgin brestur.
Það hlýtur að vera erfitt fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að kippa til baka stórum hluta af þeim endurbótum á kjörum öryrkja og aldraða sem Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi félagsmálaráðherra kom á, og fjarlægjast þannig hugsjónina um norrænt velferðakerfi. Skjaldborgin sem slegin var um velferðakerfið þegar þessi ríkistjórn var mynduð er byrjuð að bresta. Ekki ætla ég að deila á ríkistjórnina fyrir þessar skerðingar á kjörum okkar eldri borgara, enda tilheyri ég stétt fiskverkafólks og sjómanna, og vanur því að að okkur sé vegið þegar kreppir að í þjóðfélaginu. Á árum áður var þeirri aðferð beitt að fella gengið til að ná af okkur launahækkunum sem samið var um milli aðila vinnumarkaðarins. Lög voru sett á sjómenn til að hafa af þeim umsamin hlutaskipti. Allt eftir pöntun frá útgerð og fiskvinnslu.
Steingrímur J.Sigfússon fjármálaráðherra segir að þessar skerðingar almannatrygginga séu til bráðabyrgða og verði lagfærðar eins fljótt og hægt er. Ekki verður samt fram hjá því litið, að stór hópur eldri borgara munu búa við þessa skerðingu til æviloka. Eitt get ég fallist á, að dregið sé úr þeim atvinnutekjum sem ekki skerða tekjutrygginguna. Við sem erum orðin 67 ára og eldri eigum ekki að vera á vinnumarkaði þegar atvinnuleysi er í þeim hæðum sem nú. En það þýðir, að samanlagðar greiðslur úr lífeyrissjóðum og almannatryggingum verða duga fyrir framfærslu. Ég hef ætíð verið ósáttur við, að greiðslur úr lífeyrissjóðum skuli skerða almannatryggingar. Með því hefur ríkisvaldið misnotað lífeyrissjóðina.
Ekki er hægt annað en taka undir með þeim sem kalla eftir niðurskurði í utanríkisþjónustunni með lokun sendiráða. Þaðan heyrast ljótar sögur af flottræfilshætti í aðbúnaði og sukk veislum. Hvernig væri að afnema ríkisábyrgð, og ríkið greiði 8% mótframlag í Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna eins og aðrir atvinnurekendur greiða í almennu sjóðina. Spara mætti marga milljarða með því. En þá yrði sá ágæti sjóður að skerða lífeyrir og réttindi þingmanna og annarra embættismanna, en hann hefur aldrei staðið undir sér nema með umframgreiðslum úr ríkisjóði.Hvernig væri að leggja af embætti aðstoðarmanna þingmanna, eða fækka þingmönnum niður í 43. Eftir að hafa fylgst með umræðum á Alþingi undanfarið, hef ég sannfærst um að við höfum ekkert með 63 þingmenn að gera, og mál myndu ganga greiðar í gegnum Þingið ef þeim yrði fækkað. Þá vil ég líka taka undir með Borgarahreyfingunni, það er orðið tímabært að gera eignir útrásavíkinganna upptækar. Það er ótækt að þessir menn lifi í vellystingum á meðan verið er að skerða kjör almennings í landinu. Allt þetta má gera með lögum frá Alþingi.
Hvað sem öðru líður, vona ég að núverandi ríkistjórn haldi velli, en það er okkar eina von til að velferðakerfið verði bætt þegar um hægist. Ekki má hleypa spillingarflokkunum að stjórn þessa lands í bráð, helst aldrei.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.