16.6.2009 | 14:22
Frjálsar strandveiðar
Eftir að hafa hlustað á 2. umræðu um frjálsar strandveiðar á Alþingi í gær, tel ég rétt að við 3. umræðu verði tímalengd sú sem mönnum er ætlað í hvern róður verði breitt úr 12 tímum í 24 tíma úr höfn í höfn. Með því væri höfnum landsins minna mismunað. Til dæmis geta verið allt frá 30 mínútur upp í 3 - 4 klukkustundir á miðin, eftir því hvar hafnir eru staðsettar. Með þessum tímamörkum sem nú eru í frumvarpinu er þessum bátum beint að grunnslóð, þar sem yfirleitt er smærri fiskur.
Ef áframhald verður á heimild til frjálsrar strandveiða eftir þessa tilraun í ár, mun koma í ljós að nægjanlegt aðhald við þessar veiðar verði takmörkun á afla hvern sólarhring og 2 banndagar á viku. Brælur sem hamla sjósókn munu verða nægar til að draga úr afköstum við þessar veiðar.
Gaman var að hlusta á þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem andmæltu frumvarpinu, en þeir töluðu gjörsamlega andstætt hugsjónum flokksins varðandi forsjáhyggju, samkeppni og frelsi einstaklingsins. Þeim fannst ótækt að smábátar og veiðarfæri hækka í verði vegna breytinganna á fiskveiðilöggjöfinni, en mynntust ekkert á hversvegna kvótaverð hækkaði upp úr öllu velsæmi. Reyndar segja mér menn að verð á þessum bátum sé að nálgast raunvirði, og að færarúllur sem eru íslensk smíði geti aukið framleiðslu á þeim. Miklar áhyggjur komu fram í tali þeirra varðandi sjósókn. Menn myndu fara á sjó í vondum veðrum, vegna tíma- og aflatakmarka. Eins og sjómenn kunni ekki fótum sínum forráð í því efni. Sjósókn smábáta á handfærum verður ekki stunduð í aðgæsluveðri. Byggðakvótinn kom líka við sögu. Að hluti hans skuli verða veiddur á handfæri frjálsra veiða, virtist vera andstæðingum frumvarpsins þyrnir í augum. Skaðar sjávarbyggðir landsins sögðu þeir, þrátt fyrir að breyta á svæðaskiptingu til móts við þær byggðir sem fá skertan kvóta. Þeir hefðu mátt geta þess að sumir kvótahafar sem fá úthlutað byggðakvóta, leigja frá sér sinn kvóta í staðinn. Eitt var það sem kom fram í ræðu Ásbjarnar Ólafssonar að koma ætti í veg fyrir að þeir sem selt hafa frá sér kvóta fengju að nýta sér þennan veiðirétt. Ólína þorvarðardóttir vara-formaður sjávarútvegs-og landbúnaðarnefndar upplýsti að lögfræðileg könnun hafi verið gerð og ekki reynst rétt að útiloka þá aðila frá þessum veiðum.
Að opna þetta lokaða og einkavædda fiskveiðistjórnunarkerfi hlýtur að koma örlítið á móts við réttlætiskennd fólks, draga úr mannréttindabrotrum, og auka lýðræðið í þessu kommúnista kerfi sem fiskveiðar okkar eru í, og sjálfstæðismenn styðja svo rækilega.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.