29.9.2010 | 10:00
Tveir flokkar kusu eftir flokkslínum
Við atkvæðagreiðslu á Alþingi í gær um að ákæra fyrir Landsdómi fjóra fyrrverandi ráðherra í ríkistjórn Geirs H. Haarde, kusu tveir flokkar eftir fyrirfram ákveðinni línu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sammæltust um að greiða atkvæði gegn ákæru. Í tilraun til að bjarga Geir og Árna urðu þeir að hafna ákæru á hin líka. Annað hefði litið illa út fyrir flokkinn.
Hreyfingin hafði greinilega komið sér saman um niðurstöðu, enda flokkur sem er á móti tilveru fjórflokkanna og vill stjórnleysi inn á Alþingi.
Vinstri grænir greiddu allir atkvæði með ákæru á hendur öllum fjórum. Greinilega pólitískt hatur að baki, enda vildi Geir ekki samstarf við þá er hann myndaði ríkistjórnina, samkvæmt því sem hann upplýsti í kastljósinu í gærkvöld
Framsóknar- og Samfylkingarþingmenn greiddu atkvæði tvist og bast, voru greinilega hver og einn að fara eftir eigin sannfæringu, en ekki eftir fyrirfram ákvörðun þingflokkanna.
En eins og ég hef bloggað um áður var ekki ástæða til að ákæra þetta fólk, ef ekki er hægt að ná til þeirra sem stóðu að einkavæðingu bankanna og tóku ákvörðun um að skipta á milli sinna flokka Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Vinir þeirra sem fengu bankanna í hendur reyndust ekki traustsins verðir.
Fyrst að svona fór, að Geir verður dreginn fyrir Landsdóm, hefði ég viljað sjá bæði Davíð Oddsson sem fyrrverandi forsætisráðherra og síðan Seðlabankastjóra, og Halldór Ásgrímsson hans hægri hönd og viljalaust verkfæri í stjórn hans við hliðina á honum fyrir Landsdómi. Geir þá sem fyrrverandi fjármálaráðherra. Ekki má gleyma fyrrverandi bankamálaráðherra Valgerði Sverrisdóttur.
Enn og aftur hvers vegna ganga meintir bankaræningjar lausir og stunda sína fjárplógsstarfsemi eins og ekkert hafi í skorist, og hafa haft nægan tíma til að dreifa illafengnu fé sínu inn á reikninga víða um heiminn? Er ekki vani að almúgamaðurinn, sem til dæmis rænir banka, sé hafður í gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn stendur?
Að lokum: Stjórnaliðar farið nú að snúa ykkur að alvarlegri málum og leggið fram frumvörp strax á næsta þingi í flýti meðferð, sem slær skjaldborg um heimilin í landinu og komið atvinnulífinu í gang. Atvinnu sem skapa tekjur en ekki atvinnubótavinnu til dæmis með því að auka veiðiheimildir í breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi, og með því að nýta orkuauðlindir landsins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Tek undir þennan pistil.
Jón Halldór Guðmundsson, 30.9.2010 kl. 12:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.