Færsluflokkur: Lífstíll

Björt framtíð hjá Samfylgingunni

Mikil heift hefur skapast hjá Sjálfstæðismönnum út í Samfylkinguna vegna niðurstöðu kosninganna um að senda fyrrverandi fjóra ráðherra fyrir Landsdóm. Kenna þeir þingmönnum flokksins um að Geir verður einn sakfeldur.

Það gleður mitt vinstri sinnaða hjarta ef sjálfstæðismenn hafa lýst því yfir að samstarf við Samfylkinguna komi aldrei til greina hér eftir. Mér heyrðist Ríkisútvarpið í morgun vitna í ummæli þess efnis, og vona svo sannarlega að það reynist rétt.

Á minni löngu æfi hafa vinstri flokkar ætíð hlotið skaða af samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.


Tveir flokkar kusu eftir flokkslínum

Við atkvæðagreiðslu á Alþingi í gær um að ákæra fyrir Landsdómi fjóra fyrrverandi ráðherra í ríkistjórn Geirs H. Haarde, kusu tveir flokkar eftir fyrirfram ákveðinni línu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sammæltust um að greiða atkvæði gegn ákæru. Í tilraun til að bjarga Geir og Árna urðu þeir að hafna ákæru á hin líka. Annað hefði litið illa út fyrir flokkinn.

Hreyfingin hafði greinilega komið sér saman um niðurstöðu, enda flokkur sem er á móti tilveru fjórflokkanna og vill stjórnleysi inn á Alþingi.

Vinstri grænir greiddu allir atkvæði með ákæru á hendur öllum fjórum.  Greinilega pólitískt hatur að baki, enda vildi Geir ekki samstarf við þá er hann myndaði ríkistjórnina, samkvæmt því sem hann upplýsti í kastljósinu í gærkvöld

Framsóknar- og Samfylkingarþingmenn greiddu atkvæði tvist og bast, voru greinilega hver og einn að fara eftir eigin sannfæringu, en ekki eftir fyrirfram ákvörðun þingflokkanna.

En eins og ég hef bloggað um áður var ekki ástæða til að ákæra þetta fólk, ef ekki er hægt að ná til þeirra sem stóðu að einkavæðingu bankanna og tóku ákvörðun um að skipta á milli sinna flokka Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Vinir þeirra sem fengu bankanna í hendur reyndust ekki traustsins verðir.

Fyrst að svona fór, að Geir verður dreginn fyrir Landsdóm, hefði ég viljað sjá bæði Davíð Oddsson sem fyrrverandi forsætisráðherra og síðan Seðlabankastjóra, og Halldór Ásgrímsson hans hægri hönd og viljalaust verkfæri í stjórn hans við hliðina á honum fyrir Landsdómi. Geir þá sem fyrrverandi fjármálaráðherra. Ekki má gleyma fyrrverandi bankamálaráðherra Valgerði Sverrisdóttur.

Enn og aftur hvers vegna ganga meintir bankaræningjar lausir og stunda sína fjárplógsstarfsemi eins og ekkert hafi í skorist, og hafa haft nægan tíma til að dreifa illafengnu fé sínu inn á reikninga víða um heiminn? Er ekki vani að almúgamaðurinn, sem til dæmis rænir banka, sé hafður í gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn stendur?

Að lokum: Stjórnaliðar farið nú að snúa ykkur að alvarlegri málum og leggið fram frumvörp strax á næsta þingi í flýti meðferð, sem slær skjaldborg um heimilin í landinu og komið atvinnulífinu í gang. Atvinnu sem skapa tekjur en ekki atvinnubótavinnu til dæmis með því að auka veiðiheimildir í breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi, og með því að nýta orkuauðlindir landsins.


Vilja rannsókn á einkavæðingu bankanna.

Stjórn BSRB kallar eftir því að einkavæðing bankanna verði rannsökuð. Þeirri rannsókn hefði átt að vera lokið. Þrátt fyrir pólitísk afglöp og hugsanleg lögbrot séu fyrnd, verður að fá það á hreint hvað gerðist. Ekki er að mínu mati ástæða til að draga þá ráðherra fyrir Landsdóm, sem fengu hrun bankanna í fangið frá gerðum fyrri ríkisstjórnar, þar sem ekki er hægt að sakfella þá fyrir fáránlegum fyrningareglum. Þriðja atriðið sem er í höndum sérstaks saksóknara, það er að segja rannsókn á því hvort aðal eigendur og stjórnendur bankanna hafi brotið af sér og rænt þá innan frá eins sagt er, verður að fara ljúka.
 
Það er eins og öll þessi mál séu afgreidd í vitlausri röð, þau sem sökuð eru um að ráðast á Alþingi eru komin fyrir rétt. Þeir ráðherrar sem ásakaðir eru um að hafa ekki brugðist rétt við í aðdraganda hrunsins eru væntanlega á leið fyrir Landsdóm. Þeir sem ásakaðir eru fyrir að hafa misbeitt bönkunum í sína þágu og jafnvel rænt þá innan frá, vaða í peningum sem engin veit hvaðan koma og halda áfram sínu fjárfestinga braski. Þeir sem bera stjórnmálalega ábyrgð á einkavæðingu bankanna, og hverjir fengu þá í hendur, sitja í feitum embættum og telja sig ekki bera neina ábyrgð.
 
Ég líki þessu öllu saman við, að brennuvargar hefðu kveikt í stjórnarráðinu, og kallað til aðstoðar menn til að bjarga innbúi og öðrum verðmætum úr húsinu, sem þeir síðan stela. Slökkviliðið sent á vettvang þegar ekkert var neitt við ráðið. Hverjir eru sekir? Fyrst og fremst þeir sem kveiktu í, og þeir sem rændu innbúinu.
 
Aðal atriðið í öllu þessu leiðinda máli er að komast að því hvað gerðist, hvað lá að baki ákvörðunum sem teknar voru, og hvað hefði hugsanlega mátt gera til að koma í veg fyrir hrunið. Víti til að varast fyrir stjórnmálamenn framtíðarinnar. Sakfelling er ekki aðal málið, nema um auðgunarbrot sé að ræða.
 
 
 
 

mbl.is Vilja rannsókn á einkavæðingu bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótaáróður utan Þings og innan.

Umræðan um sjávarútvegsmál á Alþingi hefur fært manni sannanir um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru í bullandi hagsmunagæslu fyrir LÍÚ. Þeir taka hagsmuni útgerðamanna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar. Hver á fætur öðrum koma þeir í ræðustól og fara með sama áróðursbullið og útvegsmenn gera í skipulagðri herferð sinni til að halda í einkarétt sinn á nýtingu auðlindar hafsins. Sá einkaréttur snýst ekki bara um veiðar, heldur sölu og leigu á eign þjóðarinnar. Ekki má gleyma því valdi sem þessi einkaréttur færir þeim. Ekki bara yfir leiguliðum sínum, heldur líka yfir sjómönnum og fiskverkafólki, sem fellst í því að geta (og hafa gert) hótað þessum aðilum að selja kvótann, eða flytja burt úr viðkomandi byggðalagi með fyrirtækin, ef þeir fá ekki öllu sínu framgengt. Svo ekki sé mynnst á  óeðlileg áhrif á bæjar-og sveitastjórnir.
 
Áróðursherferð LÍÚ er byggð upp á því,að störf sjómanna,  fiskverkunarfólks og störf sem útgerð og fiskvinnsla leiða af sér, séu í hættu vegna þess að taka eigi veiðiheimildir af útgerðinni. Með því láta þeir í veðri vaka að ekki verði dreginn fiskur úr sjó, ef kvótinn verður innkallaður. Í þessu fellst hótun, en þeir gleyma því, að sá sem gerir út er ekki númer eitt í greininni, heldur þeir sem sækja sjóinn og það verða alltaf til sjómenn, og því verður alltaf róið til fiskjar á Íslandi.
 
Forustumaður útvegsmanna var gestur morgunútvarpsins hjá Rúv. fyrir nokkru og sagði  eitthvað í þá veru að þegar tekjurnar eru teknar af útgerðinni endi það með ósköpum. Ekki spurðu þáttastjórnendur hvaða tekjur hann væri að tala um. Og slapp hann við að útskýra það. Ekki stendur til að taka af þeim tekjurnar af veiðum þótt kvótinn verði innkallaður. þannig að maðurinn hlýtur að vera tala um tekjur af  kvóta leigu. Getur það verið að þau útgerðarfyrirtæki sem sölsað hafa undir sig stórum hluta af heildar kvótanum og stjórna LÍÚ séu farnir að treysta á leiguliða sína til að halda útgerðinni gangandi. Eða hvað átti maðurinn við?
 
Það fellst mikil viska í orðtakinu að ´´með illu skal illt út reka´´því ættu stjórnvöld að innkalla allan kvótann strax 1. september n.k. í stað þess að gera það á 20 árum, og nota þau ár til að tryggja núverandi handhöfum kvótans veiðiheimild á því magni sem þeir hafa í dag, gegn vægu gjaldi í auðlindasjóð. Tuttugu ára aðlögunar tími ætti að duga og vonandi komin skilyrði til að leggja hið illræmda kvótakerfi af eftir þann tíma.
 
 
 
 

Fyrsta hreina vinstristjórn á Íslandi afnemur sjómannaafsláttinn.

Mikið er skrifað á blogginu í dag að sjómannafslátturinn sé barn síns tíma. Hann hefur verið hluti af kjörum sjómann síðan 1954. Auðvitað hafa orðið miklar breytingar á sjósókn frá þeim tíma, en fjarvera frá heimilum og hættur á lífi og limum eru enn fyrir hendi.
 
Fáir virðast muna af hverju sjómannaafslátturinn varð til. Ástæðan var fyrst og fremst sú, að erfitt var orðið að manna bæði bátaflotann og síðutogaranna. Ekki var óalgengt að tukthúsin voru tæmt af brennivíns dauðum mönnum og þeir settir um borð í togara sem var á leið út í túr, jafnvel 3ja mánaða saltfisktúr.
 
Það er rétt hjá Steingrími að aðstæður eru aðrar í þjóðfélaginu en áður þegar komið hefur til tals að afnema sjómannafsláttinn. Sem gefur tilefni til að líta á önnur hlunnindi sem hann og aðrir í þjóðfélaginu njóta. Nefna má dagpeninga hans og annarra á ferðalögum, sem maður hefur heyrt að séu svo ríflegir að afgangur er eftir hverja ferð, sem rennur í eigin vasa. Þá má nefna þingfarakaup sem hann og aðrir landsbyggðaþingmenn njóta vegna fjarveru frá lögheimili sínu, þótt þeir reki heimilið í Reykjavík. Að lokum má nefna þyngsta bagga ríkisins vegna ráðherra, þingmanna og annarra opinberra starfsmann, sem er ríkisábyrgð á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Reikna má með að mótframlag ríkisins og sveitarfélaga í sjóðinn verði 13-14% á næsta ári, vegna hruns fjármálakerfisins í fyrra haust. Samkvæmt lögum tryggir ríkisjóður lífeyrissjóðnum að hann eigi ávalt fyrir framtíðarskuldbindingu, sem þýðir að hann þarf aldrei að skerða réttindi eins og aðrir sjóðir verða gera þegar illa gengur með ávöxtun. Atvinnurekendur á almenna vinnumarkaðnum greiða 8% mótframlag til annarra lífeyrissjóða. Hér er um að ræða milljarða aukakostnað fyrir ríki og bæ, og að sama skapi fríðindi fyrir ráðherra, alþingismenn og annað opinbert starfsfólk.
 
Sjómenn munu ekki láta þetta yfir sig ganga, nema öll fríðindi verði afnuminn í landi. Þegar samningar verða lausir munu þeir gera kröfu á útgerðina um bætur. Til dæmis mætti krefja útgerðina um hærri fæðispeninga, þannig að þeir dygðu fyrir góðu fæði um borð. Ekki verður hægt að krefja þá um frítt fæði, sem yrði þá naumt skammtað og lélegt. Einnig gætu þeir krafist þess að hætta greiða hluta af olíunni. Ríkisvaldið hefur oft í gegnum tíðina sett lög á sjómenn og skert samninga þeirra með því að færa hluta af umsömdum hlutaskiptum þeirra til útgerðarinnar til greiðslu á olíu og öðrum útgerðarkostnaði.
 
Að lokum vil ég benda á, að þrátt fyrir bættan aðbúnað við sjósókn, hafa kvenréttindasamtök ekki krafist þess að jafnrétti milli kynja sé gætt við ráðningu áhafnar um borð í skip.
 
 
 

mbl.is Sjómannastarfið mikið breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bygging hjúkrunarheimila (í skoðun).

Þetta er ánægjuleg frétt svo langt sem hún nær. Það sem fer orðið í taugarnar á mér, er sú árátta hjá þessari annars ágætu ríkistjórn, að hafa allt í skoðun, í stað þess að taka ákvarðanir fljótt og vel.

Vonandi verður Árni Páll jafn fljótur að taka ákvörðun í þessu máli, og þegar hann fyrstur allra ráðherra í ríkistjórninni ákvað að skera niður í sínu ráðuneyti, með því að skerða lífeyrir eldriborgara 1.júlí s.l. Svo ég tali ekki um að skila ekki almennum launahækkunum til þessa hóps, eins og honum ber samkvæmt lögum.

Ef hann bregst fljótt við, og heimilar byggingu hjúkrunarheimila strax, mun ég fyrir mitt leiti fyrirgefa honum aðför hans að hagsmunum eldriborgara á þessu ári.

þá vil ég benda núverandi meirihluta í bæjarstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar á, að nú er lag fyrir þá að krefjast byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði eins og lofað var af fyrri ríkistjórn. Þau þurfa ekki halda pólitískum hlífðarskyldi fyrir þessa ríkistjórn eins og þá fyrri, þar sem þeirra flokkar eru nú í stjórnarandstöðu á Alþingi.

Krafan er eitt gott rými fyrir hvern einstakling á hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

 

 


mbl.is Bygging hjúkrunarrýma í skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár pólitískar stefnur á Alþingi.

Ímyndunar pólitík hefur bæst við hægri og vinstri pólitík á Alþingi. Þessi nýja stefna virðist vera þverpólitísk, og ná inn í alla flokka á Alþingi. Hún felst í því, að ótrúlega margir þingmenn ímynda sér: Að við eigum ekki að borga Icesave-skaðann, ekki semja við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, ekki taka önnur lán erlendis, ekki nýta auðlindir okkar með því að virkja og veiða meiri fisk, ekki  reisa álver á Bakka og helst að stöðva uppbyggingu álversins í Helguvík, og hægt sé að reka þjóðarbúið með ferðaþjónustu.

Raunveruleikinn er aftur á móti sá, að við verðum að borga, semja, þiggja þau erlendu lán sem eru í boði, nýta allar okkar auðlindir, klára  álverin í Helguvík og Bakka og að fjölga ferðamönnum.

Vonandi er það ímyndun, en mér finnst eins og þessi nýja stefna í pólitík sé mest áberandi hjá alþingiskonum, svo ég tali ekki um hina ungu forustumenn Framsóknarflokksins.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband